Freyja tímabundin

Hér mun kjúlli sjálfur bulla í óákveðinn tíma þar til kjúlli sjálfur lifnar aftur til lífsins. Njótið heil

miðvikudagur, júlí 12, 2006

www.kjulli.com

þriðjudagur, júlí 11, 2006

Spennandi hlutir að gerast..

Mér finnst þessi mynd kúl!

Annars er kjúlli.com alveg að fara að lifna við. Bíðið spennt, það verður eitthvað rosalegt!

Ég er þreytt, eins og alltaf núna. Lukka er tilbúin og hele familjen búin að fara í jómfrúarsiglingu nema ég. Fer í fílu ef ég fæ ekki að sigla í kvöld!

ég er barnaleg og fúl í dag.

p.s. ég á skírnarafmæli í dag. Pakkar vel þegnir ;)

mánudagur, júlí 10, 2006

Það er kominn tími til að hætta að ferðast...

....þegar maður sofnar í vinnunni á mánudegi!!

fimmtudagur, júlí 06, 2006create your personalized map of europe
or check out our Barcelona travel guide

Hugsið ykkur...ef ég geri eins map af Íslandi væri ég búin að skoða minna örugglega!!
Mið Evrópa er samt helst til óskoðuð hjá mér. Þetta er líka mjög ónákvæmt, til að mynda hef ég bara komið til Flensborgar í þýskalandi, millilent í Belgíu og komið til Marmaris í Tyrklandi. En svona er þetta. Ég hlakka svo til að fara út fyrir Evrópu í haust! :)

Klakinn

Í gærkvöldi átti ég í vitrænum umræðum við ónefndan finnskan dreng um "ágæti" Íslands. Eftir smá umræðu vorum við eiginlega sammála um að við hlytum að vera klikkuð að vera hér. Hér er alltaf vont veður, allt er dýrt, tungumálið er fáránlegt...hvað er það eiginlega sem við sækjumst eftir hér?
Ég taldi hann þó klikkaðri en ég því hann kom hingað af frjálsum vilja. Amk var það ég sem var bara svo óheppin að vera fædd hér!

Þegar ég svo kom í miðborgin rétt uppúr 8 í morgun var sýn mín af Íslandi svolítið önnur. Ég fór í göngutúr um Þingholtin og upp Skólavörðustíg, keypti mér dýrt kók og settist fyrir utan eitt mesta túristattraktion í Reykjavík: Hallgrímskirkju og naut sólarinnar! Þetta var alveg hreint út sagt frábært. Einn sólardagur í Reykjavík er á við 40 á Ítalíu.

Málið er bara að sama hvað, þá er klakinn yndislegur. Eins skrítið og það er. Mér finnst mjög fínt að búa í útlöndum í einhvern tíma, en ég held ég geti ekki ímyndað mér líf mitt án klakans góða :)

Þessi færsla var í boði þjóðernissinnans sem blundar í mér ;)

þriðjudagur, júlí 04, 2006

Ofur túrhestar

Ferðalangarnir veðurbarðir í þokunni uppi á Sandafelli

Á föstudaginn var brunað í fyrstu túrhestaferðina af þrem. Þegar útlendingurinn er nú loksins mættur á klakann er eins gott að sýna honum svolítið af landinu! Stefnan var á Skaftafell...en þar sem veðurspáin sagði að vestfirðirnir yrðu betri var plönunum breytt skyndilega og brunað norður eftir vinnu. Það var bara rigning og ógeðslegt veður á leiðinni, en eftir 5 klst keyrslu komum við á Reykjanes við Ísafjörð. Bjarnheiður snilli benti okkur á þennan frábæra stað þar sem við fórum í stærsta heita pott landsins, 50 m langan! - og nutum útsýnisins :)

Útsýnið á Reykjanesi, soldið dökk mynd

Á laugardeginum var það rise and shine til að keyra enn fleiri km. Þennan daginn þræddum við óteljandi firði, sáum ógurlegt magn af fallegum fossum (og í einum þeirra ákvað síminn minn að synda smá!) og löbbuðum útum allt! Íþróttaálfurinn dró mig upp á alla hóla og hæðir og auðvitað er ég ekki í neinu formi fyrir slíkt - en það er alveg augljóst að það er kominn tími til að koma sér í form ef maður ætlar að ferðast eitthvað meira með þessum manni!
En þetta var frábær dagur! Reyndar heilmikil þoka, og til að mynda klifruðum við uppá Sandafell við Þingeyri þar sem átti að vera frábært útsýni, en eins og sést á efstu myndinni hér var lítið að sjá nema þoku! ;)
...og Dynjandi var magnaður!

Með Dynjanda í baksýn

Ísafjörður, Hólmavík og Hrafnseyri sáum við til dæmis. Ég hitti oftast einhvern sem ég þekki og Henrik var alveg hættur að skilja hvernig ég gæti þekkt fólk alls staðar, meira að segja á svæði sem ég hefði aldrei komið á áður! En besti bær ferðarinnar var án efa Borðeyri...aldrei séð jafn lítinn "bæ" !! ;)

Við enduðum svo daginn á Tálknafirði hjá Páli Heimissyni þar sem við drukkum bjór, grilluðum og fórum svo í heitu pottana út með firði :) Henrik er aaalveg að fara að fatta æði mitt fyrir heita vatninu ;) En sundið mun hann seint skilja ;)

Bjargtangar

Á sunnudeginum ákvað Palli að slást í för með okkur útá vestasta punkt Evrópu, Bjargtanga á Látrabjargi. Magnaður staður! Ógurlegir klettar með ótrúlegu magni af Ritum og álkum! og Lundum og fleiri fuglum líka. Magnað! Íþróttaálfur 1 og 2 vildu endinlega klifra upp á bjargið og ég fór með. Það endaði þó með að við fórum ekki alveg upp á topp, en þó langleiðina. Ég var vot og blaut uppað hnjám og hundfúl á leiðinni niður. Það er ótrúlegt hvað skapið mitt fer fljótt þegar ég verð blaut í fæturna! Um leið og ég var svo komin í þurr föt eftir 2 klst(!!) gönguferð þá var ég hress og kát ! ;) En ok, ég verð að viðurkenna að það er nokkuð magnað að koma uppá alla þessa hóla og hæðir ;)
Tásur á Rauðasandi

Síðan skiluðum við Palla af okkur til þess að hann gæti farið að hitta pólitísku vini sína en við héldum áfram á Rauðasand. Magnaður staður. Ótrúlega flottur sandur, sem er nú mest gulur en ekki rauður. Þar skelltum við okkur í sandalana, því aðrir skór voru blautir og löbbuðum út að sjó. Náðum nokkrum góðum myndum í skemmtilegu veðri, hálf skýjað, hálf sól, smá vinur... nokkuð magnað :) Vegurinn þangað er hinsvegar hörmulegur, mæli ekki með honum, frekar en öðrum vegum á Vestfjörðum. Ég var lifandi ósköp fegin að við fórum á Súbarú en ekki Bellu!

Síðan var brunað í bæinn með stuttum stoppum á leiðinni. Henrik horfði með löngunaraugum á allar gönguleiðirnar fyrir botni Breiðarfjarðarins sem ekki gafst tími til að fara. 1200 km á 3 dögum er kannski ekki skynsamlegasti ferðamátinn, en svona er þetta þegar maður hefur ekki meiri tíma!

Fleiri myndir hér

p.s. Síminn minn lifnaði aftur við! Svo ykkur er velkomið að hringja í mig :)

mánudagur, júlí 03, 2006

Vestfirðir með íþróttaálfinum

Veðurspáin sagði mér að fara vestur á firði á föstudaginn. Hún hafði auðvitað rangt fyrir sér og það var miklu betra veður á suðurlandi. En það breytir ekki þeirri einföldu staðreynd að ég átti frábæra helgi með íþróttaálfinum sem dró mig upp á öll fjöll og fyrnindi sem urðu á vegi okkar. Ég komst að því að það er eins gott að hunskast í form ef ég ætla ever aftur í ferðalag með þessum manni, ég var oftast bölvandi og ragnandi í miðri brekku, farið að hrygla í lungunum á meðan íþróttaálfurinn var búinn að hlaupa uppá topp og aftur til baka..... eða svona næstum ;)

Ferðasaga með myndum kemur von bráðar :)

En eitt af því fyrsta sem mér tókst að áorka í ferðinni var að missa símann minn í á, svo að núna á ég ekki síma. Fólk getur náð í mig í síma 5510165 á skrifstofutíma, annars er ég utan þjónustusvæðis :)

föstudagur, júní 30, 2006

Íslensk útilega


Þá er komið að því að leggja land undir fót, og í þetta skiptið ætla ég baaaaaaara að halda mig á klakanum! Ótrúlegt en satt! Stefnan er tekin líklegast norður...og myndi ég giska á að nýja tjaldið verði sett upp á Vestfjörðum í kveld! Annars veit enginn, veðurspáin virðist breytast jafn hratt og innistæðan á bankareikningnum mínum!
En að minnsta kosti er búið að pakka Súbarúinn fullan af íslenskum útilegubúnaði, stígvél, regngalli, nýtt kúlutjald, vetrarfötin og sólgleraugun! Henrik er mjög spenntur að fá að sjá eitthvað fleira en moldarbeð Mosfellsbæjar og kjallaraíbúðina í Árbænum. Svo eru það Sviðnur um næstu helgi og enn ein útilegan helgina eftir það.
Ég fann ógurlegt magn af túrhestabókum á bókasafninu áðan og er því með hjálpartæki þegar kemur að því að fræða útlendinginn um landið fagra. Ég náttla veit ekkert um þetta land sjálf! - ég hef líka komið oftar til Kaupmannahafnar en Akureyrar...

Bara klukkutími eftir af vinnu og svo bruna af stað... ! :)